Ferill 812. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2048  —  812. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um Íslandsbanka.


     1.      Telur ráðherra rétt að ríkið, sem eigandi tæplega helmings hluta í Íslandsbanka, taki afstöðu til samruna við annan eða aðra banka með tilliti til samkeppni á fjármálamarkaði?
    Samkvæmt lögum nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins, fer stofnunin með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, í samræmi við lög, góða stjórnsýslu- og viðskiptahætti og eigandastefnu ríkisins á hverjum tíma. Í lögunum kemur fram að stofnunin skuli í starfsemi sinni leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði, tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings. Þó ber að hafa í huga að það er á forræði Samkeppniseftirlitsins, en ekki Bankasýslu ríkisins eða ráðuneytisins, að meta samkeppnisáhrif samrunans og samþykkja hann, ógilda hann eða setja honum skilyrði, sbr. ákvæði samkeppnislaga.
    Enn fremur ber Bankasýslunni að sjá um samskipti ríkisins við fjármálafyrirtæki sem ríkið á eignarhluti í og tengjast eigandahlutverki þess. Samskiptin fara í gegnum bankaráð og stjórnir fjármálafyrirtækjanna. Auk þess ber stofnuninni að meta og setja skilyrði um endurskipulagningu og sameiningu fjármálafyrirtækja með hliðsjón af hlutverki og markmiðum stofnunarinnar og eigendastefnu ríkisins.
    Í eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki sem Bankasýsla ríkisins hefur umsjón með, frá febrúar 2020, eru helstu markmið ríkisins sem eiganda tilgreind. Þar kemur fram að mikilvægt sé að umsýsla þessara eignarhluta sé fagleg, traust og á markaðsforsendum, m.a. til að hámarka söluandvirði og arðgreiðslur fyrir skattgreiðendur, að teknu tilliti til áhættu, enda er um verðmætar samfélagseignir að ræða. Ítarlega er fjallað um markmið og viðmið ríkisins varðandi rekstur og eignarhald fjármálafyrirtækja í eigandastefnunni.
    Það má því segja að sá aðili sem fara á með eignarhaldið samkvæmt lögum, Bankasýsla ríkisins, hafi annars vegar heimild og hins vegar ítarlegar leiðbeiningar í lögum og eigandastefnu ríkisins, sem ráðherra ber ábyrgð á, til að móta afstöðu til slíkra mála, án frekari afskipta ráðherra. Ljóst er að vegna atkvæðavægis Bankasýslunnar þyrfti stofnunin að leggja mat á og taka afstöðu til samruna annars banka við Íslandsbanka út frá umræddum viðmiðum ef til þess kæmi.

     2.      Telur ráðherra að önnur sjónarmið en samkeppnissjónarmið og hagsmunir neytenda eigi að ráða afstöðu fulltrúa ríkisins?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. er í fyrrgreindri eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtæki ríkisins og lögum um Bankasýslu ríkisins skýrt kveðið á um hvaða markmið og viðmið stofnuninni ber að horfa til við meðferð eignarhlutanna, þ.m.t. við mat á afstöðu til samruna við aðra banka og þykir ekki tilefni til að setja fram önnur sjónarmið í þessu sambandi.
    Ljóst er að áform um slíkan samruna og mat á áhrifum á samkeppni á fjármálamarkaði kæmu til kasta Samkeppniseftirlitsins sem þyrfti að veita samþykki fyrir sameiningunni og þá eftir atvikum að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
    Þá má geta þess að mál af þessu tagi fara fyrst til stjórna viðkomandi fjármálafyrirtækja, sem bera ábyrgð á því að meta tillögur af þessu tagi og að því loknu kynna stjórnirnar afstöðu sína til málsins fyrir hluthöfum til ákvörðunartöku.